Ég tek eftir að mér líður oft þannig að að mér sæki pressa um að ég eigi og þurfi að sýna fólki líf mitt. Eins og lífið mitt eigi að vera leiksvið og ég aðalpersónan sem eigi að senda út beint í línulegri dagskrá. Jahérna hvað það er skrítin tilfinning og óþörf. Og leiðinleg. Og truflandi. Ég segi henni vinsamlegast upp og afþakka.
Eruð þið með sömu tilfinningu? Er þetta samfélagsmiðlaveiki? Er þetta merki um að ég þurfi að fara í fráhald frá samfélagsmiðlum? Jafnvel fráhald frá sjálfri mér?
Þetta er einhvers konar blanda af jesú komplexum og smáskammtamikilmennskumaníu.
Ég fíla þetta ekki.
Erum við kannski öll að eiga við þetta? Erum við öll að keppast við að vera í núinu og svo að kenna hinum hvernig við förum að því? Eða er þetta bara ég? Mögulega er þetta bara ég. Í það minnsta þarf ég ekki að vita annað en að þetta er allavega ég.
Má ég ekki bara sleppa tökunum og treysta því að annað fólk sjái um sig og sína?
Jú ég má það.
Ég er ekki björgunarsveitarkona. Ég hef bara aldrei gerst félagi í björgunarsveit. Það eru sem betur fer önnur í því.
Ég viðurkenni að ég finn mjög fyrir því hvað innbyggð meðvirkni mín magnast á samfélagsmiðlum og hve skrunið er eyðileggjandi tímasóun. Einhvern tímann var gaman að skruna samfélagsmiðla en mér finnst það bara alls ekki lengur. Samt held ég áfram að nota þá, sem betur fer minna en áður. En þeir eru fyrir mig bara alls ekki gagnlegir lengur og mér finnst ég verða að halda eitthvað annað eða bara verða frjáls undan notkun þeirra og fíkninni sem henni fylgir.
Þá koma auðvitað upp áhyggjurnar af því að missa af lífinu. Missa af afmælum, öllum spennandi tónleikatilboðunum, vinahittingunum og fleira og fleira.
Ég ætla kannski að hugsa þetta aðeins. En það er kannski ágætt samt að ég rifji það upp að ég á tölvupóstfang sem ég get notað til að gerast áskrifandi að tilboðum frá tónleikahöldurum, ég á símanúmer sem ég get minnt fólkið mitt á að hægt er að nota til að senda mér boð í afmæli og síðast en ekki síst, það eru enn til fjölmiðlar sem berjast í bökkum við að koma til okkar upplýsingum sem töluvert meira gagn er af en af samfélagsmiðlum. Það má líka gerast áskrifandi af póstum frá þeim.
Kannski er alveg hægt að hætta á samfélagsmiðlum. Það er allt hægt með hæglæti :)
Comments