Þegar barn er lagt við brjóst móður eftir fæðingu fer það fljótlega að fálma eftir fæðu. Færni til að finna geirvörtuna og vitneskjan að það þurfi að sjúga er til staðar hvort sem barnið sýgur svo mjólk eða pela, eða fær nokkra dropa úr glasi eða skeið. Barnið veit að það þarf að sjúga og kyngja til að uppfylla eina af grunnþörfum sínum: að matast. Það er í eðlishvöt okkar til að lifa af.
Síðar æfum við okkur í að halda haus, velta okkur, toga okkur áfram og upp, standa upp, ganga og fleira sem eykur færni okkar og möguleika í lífinu. Þetta geta börn gert án þess að þeim sé sagt að gera það, kennt það eða þeim stýrt í það. Ef þau fá frelsi og tíma til að prófa sig áfram þá mastera þau þessi verk á sínum tíma, á sínum hraða. Stundum með óþreyju en oftast í hæglæti. Að fylgjast með barni prófa sig áfram án afskipta er eitt og sér dásamleg núvitundaræfing og þvílík gjöf sem það er að gefa barni það að grípa ekki oft og mikið inn í. Treystum að börnin séu með eðlishvöt og innsæi.
Það er eðlishvöt okkar sem hvetur okkur áfram í þessi verk og svo síðar í önnur og flóknari verk. Við notum svo innsæi okkar til að greina hvar er hætta og hvernig er best að gera eitthvað.
Við, eins og flest dýr í dýraríkinu, fæðumst með eðlishvöt og innsæi. Til dæmis vita kettir hvernig þeir veiða mýs, það þarf ekki að kenna þeim það eða segja þeim að gera það.
Með tíma, tilraunum, frelsi og aukinni færni getur innsæi okkar aukist. En það getur líka minnkað. Um leið og einhver efast um að við séum fær um að hafa skoðanir, taka ákvarðanir og að okkur sé treystandi til að prófa okkur áfram, til dæmis þegar barni er sagt að það geti ekki eitthvað, barnið fær ekki að prófa eða þegar verkin eru tekin af barninu, svo sem að velja sér föt, klæða sig, skammta sér mat, matast, reyna að renna upp úlpunni og fleira, fær barnið þau skilaboð að það geti ekki verkin. Því sé ekki treystandi. Það fer að efast um sig.
Og við það fer innsæið að brenglast: „Hvernig geri ég þetta? Hvað get ég? Hver er ég?
Álit barnsins á sjálfu sér breytist. Sterkt sjálfsálit sem segir. „ég get þetta, ég prófa, ég er nóg“ breytist, því álit annarra á barninu, hvernig aðrir líta á barnið, verður eigið sjálfsálit barnsins.
Þegar barn er svo farið að líta á sig með efasemdum og óvissu fylgir í kjölfarið óöryggi og óró. Sjálfsbjargarviðleitni, sjálfstæði og sjálfsþekking brenglast. Við verðum það sem aðrir segja okkur og sýna okkur með orðum, verkum og svipbrigðum að við séum. Og ofan á það byggjum við þar til við komumst á fullorðins árin og föttum að við vitum ekki hver við erum.
Ég er 42 ára fimm barna móðir með svakalega mikla reynslu á bakinu. Ég var „venjulegt“ barn sem breyttist í villtan ungling. Ég bar mig saman við aðra, fannst ég á engan hátt nóg; nógu sæt, nógu klár, nógu dugleg og allt það. Ég var meðal nemandi, hefði eflaust getað menntað mig meira og hraðar ef ég hefði haft sjálfsþekkingu og sjálfstrú í það. Ég vissi ekki hver gildi mín, þarfir og langanir væru en var þó í stanslausri leit af því. Ég leitaði bara á vitlausum stöðum. Ég reyndi að auka vægi mitt og virði með því að fá hrós frá öðrum. Ég fór mjög ung að reyna að fá stráka til að líka við mig. Ef öðrum fyndist ég sæt, skemmtileg og efirsóknarverð þá var ég það kannski. En aðrir þurftu að segja mér það. Ég treysti ekki á mitt eigið álit. Það var svo brenglað. Ég var ekki nóg nema ef ég gerði eitthvað til að verða nóg. Ég fór í allskonar hlutverk. Það sem ég sá að vakti athygli annarra gerði ég meira af. Gott og slæmt. Ég reyndi mitt allra besta að gera sem mest af því góða og heilbrigða en ég var einhvern veginn miklu betri í því slæma þannig að ég gerði það bara. Það skilaði mér til dæmis því að ég var alveg framúrskarandi ofdrykkjukona í 20 ár, undanfarin átta ár hef ég svo verið framúrskarandi edrú kona og verð að segja að það bæði fer betur með mig og fer mér betur. Það er hin raunverulega ég.
Ég er þess fullviss að efasemdir mínar, brengluð sjálfsmynd og léleg sjálfsþekking hafði áhrif á þann farveg sem ég fór í og hvernig mér hefur gengið í lífinu. Ef við þekkjum ekki okkur sjálf, vitum ekki hver við raunveruega erum, hver gildi okkar, þarfir og langanir eru þá eigum við erfiðara með að taka ákvarðanir og ábyrgð á eigin athöfnum. Athafnir okkar eru það sem gerir okkur að okkur. Það sem við GERUM fer að skilgreina okkur en ekki það sem við ERUM. Sem er svo ósanngjarnt og vont. Um tíma fór allur minn fókus á að ég væri alki, aumingi og lúser frekar en hjarthlý, klár og skemmtileg.
Í yfir 30 ár voru mín innri samskipti við mig sjálfa á þessa leið: „af hverju getur þú aldrei gert neitt rétt, þú getur þetta ekki, hvað er að þér, af hverju getur þú ekki verið eins og aðrir“?
Og þó að ég hafi gert alveg ótrúlega marga magnaða hluti á lífsleiðinni þá gat ég ekki fyrr en fyrir um tveim árum virkilega metið mig og virt mig á réttan hátt. Fram að því var alltaf efi, niðurrif og vanvirðing við sjálfa mig. Sem hafði áhrif á mig og allt í kringum mig.
Því við eigum sjaldnast í betri samskiptum við aðra en við eigum við okkur sjálf.
Eina manneskjan sem dröslast með okkur í gegnum allt lífið, frá vöggu til grafar, erum við sjálf. Liggur þá ekki í augum uppi að samband okkar við okkur sjálf er það mikilvægasta sem við eigum?
Hvernig samband er það að segja látlaust „þú getur þetta ekki, þú ert klúðrari, hvað er að þér og af hverju getur þú ekki verið eins og aðrir“? Ef maki talar svona við maka er það andlegt ofbeldi. Ég beitti mig sjálfa andlegu ofbeldi. Og er að vinna mig út úr því núna.
Við eigum aldrei að segja svona við aðra og við eigum aldrei að leyfa neinum, hvorki öðrum né okkur sjálfum, að tala svona við okkur sjálf.
Hvernig tengist þetta hæglæti?
Jú, eftir að ég hægði á í huganum þá fór ég að sjá og skilja. Ég fór að finna fyrir innsæi mínu, og nota það. Ég fann hverjar mínar raunverulegu þarfir og langanir eru og fékk öryggi og kraft til að setja það og mig í fyrsta sæti. Segja: „Ég hef leyfi til að prófa, takast og mistakast. Ég er ekki mistök mín, saga mín eða það sem aðrir sjá í mér. Ég er það sem ég ákveð að ég ætla að vera. Allt sem ég hef gert og geri, gerir mig að mér. Ég er ég. Ég kann vel við þá manneskju sem ég er og ég hef allt sem þarf, og fullt leyfi til að blómstra“.
Við höfum tækifæri til að blómstra. Ytri áhrif eins og vatn, fæða og umhverfi hefur auðvitað áhrif en við verðum líka að trúa að við eigum öll pláss í sólinni en við þurfum að teygja okkur í átt að henni til að blómstra og lifa til fulls.
Hvernig finnum við hver við erum, hvað við þurfum, hvað við þráum og hvernig náum við því?
Við getum endurforritað heilann. Við getum brotist út úr viðjum vanans og venjanna, breytt hugsunum okkar, samskiptum og sambandinu við okkur sjálf, og alla aðra. Ef við gefum hundi nafn þá fer hann á einhverjum tímapunkti að svara því nafni. Ef ég ákveð að kalla mig klúðrara fer ég á einhverjum tímapunkti að svara því nafni og trúa að það sé ég.
Ég hef ákveðið að ég er ekki klúðrari þó að ég klúðri að sjálfsögðu oft allskonar og geri mistök. Ég hef ákveðið að ég er flott. Ég segi mig flotta og ég trúi því að ég sé það. Ég er flott við allar athafnir mínar, líka þegar mér líður illa, á erfitt með eitthvað, skortir færni, bregst illa við og hegða mér á skjön við það sem ég ætla mér. Þá sýni ég mér samkennd, mildi og virðingu, ég tek ábyrgð og reyni að taka góða ákvörðun um áframhald. Það er flott og þá er ég líka flott - jafnvel ógreidd, í rifnu náttbuxunum mínum, innan um öskrandi börnin mín þegar húsið lítur út eins og eftir loftárás. Ég er með hugarró og veit að þetta er tímabundið, veit að ég hef færni til að komast á betri stað.
Ég er flott og mikilvæg manneskja. Alveg eins og þú.
Þetta er sumt af því sem hefur reynst mér rosalega vel og gott er að hafa í huga:
· Við þurfum ekki að sanna okkur eða ná einhverjum sérstökum áfanga til að vera einhvers virði og elskuverð.
· Hamingjan er ekki handan við hornið, í næstu háskólagráðu eða þegar við erum búin að missa 5 kg. Hún birtist ekki þegar við erum búin að taka húsið í gegn, vinna okkur upp í vinnunni, eignast maka, barn eða börn né þegar við erum búin að fá visst mikið af „like“. Hamingjan er raunverulega hér og nú, við þurfum bara að hægja á og heypa henni inn.
· Tökum sögur, sigra, sorgir og klúður í sátt. Þessir hlutir hafa stjórnað of lengi. Taktu stjórnina. Þegar hugurinn fer í neikvæðni og niðurrif segðu: „hættu, ég ætla ekki að leyfa þér að tala svona við mig, þú ert bara hugsanir mínar og ímyndanir, ekki sannleikur og raunveruleiki."
· Ef vissir atburðir í lífi okkar hoppa oft upp í hugann og við hugsum „bara ef þetta hefði ekki gerst, ef ég hefði ekki gert þetta, ef hann/hún/hán hefði ekki gert þetta, ég get þetta ekki út af þessu, af hverju gerðist þetta?“ Þá þurfum við raunverulega að vinna okkur í gegnum þessa atburði eða henda þeim út á hafsjó. Fortíðin á ekki að stjórna framtíðinni. Að lifa með svona hugsnum er eins og að vera alltaf með 50 kílóa bakpoka. Til þess að komast áfram, þarf að taka upp úr bakpokanum og létta á sálinni. Hún/við eigum ekki skilið að þetta dragi okkur niður.
· Það er mjög líklega enginn annar að fara að taka af okkur bakpokann eða „bjarga“ okkur. Það er alltaf einhver einhvers staðar sem getur aðstoðað okkur. En mesta vinnan er hjá okkur sjálfum og fyrsta skrefið er að ákveða að gera breytingar.
· Það eru engar skyndilausnir, kúrar eða töfraráð. Þeir sem lifa góðu lífi þurfa að hafa helling fyrir því.
· Það hjálpar engum að öfundast, pirrast og tíkast út í þá sem hafa það gott og gera góða hluti. Það er tækifæri til að samgleðjast og hugsa: „ef þau geta það, þá get ég það“ Því af hverju í ósköpunum ætti það að vera hlutskipti annarra að hafa það gott en ekki okkar? Það er glórulaust en hugurinn gæti reynt að segja okkur annað.
· Farðu til baka þegar þú varst barn og hafðir enn trú á þér. Kannski þarftu að fara til þess tíma sem þú varst ungabarn. En trúðu mér, þú fæddist með trú á sjálfa/n/t þig. Finndu þessa trú aftur. Annað er tímasóun og lífsskerðing.
Þegar við finnum svör við þessum spurningum, getum við mun betur farið að lifa innihaldsríku og heilu lífi:
· Hvað þarf ég raunverulega?
· Hvað langar mig raunverulega?
· Hver eru lífsgildi mín?
· Hvernig ætla ég að nýta þann tíma sem ég hef í þessum heimi sem best og lifa því lífi sem mig dreymir um?
· Hvað stendur í vegi fyrir mér og hvernig ætla ég að vinna mig í gegnum það?
Mín leið til að finna svörin var að hægja á huganum, fækka flækjum og óþarfa í lífi mínu, fókusa á það góða, sýna þakklæti, læra hvernig heilinn virkar, leita eftir fróðleik, verkefnum og öðru sem auka færni mína, skora mig á hólm og gera mig glaða.
Höfundur: Ágústa Margrét Arnardóttir
Meðstjórnandi Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi
og hér:
Comments